Edda Björgvinsdóttir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1972 og útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1978. Edda hefur starfað sem leikari, leikstjóri og höfundur við fjölmörg leikhús m.a. Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, Leikfélag Íslands og Alþýðuleikhúsið. Hún hefur einnig leikstýrt og samið handrit fyrir velflesta starfandi ljósvakamiðla á Íslandi sem og sjónvarpsstöðva. Undanfarin ár hefur Edda þjálfað stjórnendur atvinnulífsins m.a. í tjáningu, fjölmiðlaframkomu og mannlegum samskiptum – ýmist í hópum eða sem einstaklingsþjálfun – og unnið með fjölmörgum fyrirtækjum við undirbuning á öllum mögulegum uppákomum. Hún hefur þjálfað starfsfólk ríkisstofnana á námskeiðum Rekspalar og leiðbeint á námskeiðum sem ÍTR (Hitt húsið) hefur boðið upp á. Undanfarið hálft ár hefur Edda unnið sem leiklistarráðunautur og kynningarfulltrúi á Sólheimum í Grímsnesi og unnið margvísleg leiklistarstörf með fötluðum og ófötluðum þar ásamt því að upplýsa almenning á Íslandi um það hugsjónarstarf sem þarna fer fram. Sérsvið Eddu er framkoma og sjálfsöryggi, sjálfstraust, fjölmiðlaþjálfun og mannleg samskipti.

FYRIRLESTRAR

TILFINNINGABANKINN

Jákvæðni er lífsafstaða. Mikilvægt er fyrir hverja manneskju að tileinka sér jákvæða lífsafstöðu til þess að geta átt gjöful mannleg samskipti. Það að tileinka sér jákvæða lífsafstöðu er ákvörðun og í kjölfarið stöðug þjálfun.
Við gerum oft ekki greinarmun á því að reyna að hafa áhrif á umhverfi okkar með athugasemdum (gagnrýni) og að því að vera neikvæð. Nauðsynlegt er að þekkja muninn á því að “rýna til gagns” og að “menga” umhverfi sitt með neikvæðni. Skortur á færni til að koma á framfæri athugasemdum veldur oft misskilningi og misklíð. Á fjölmörgum vinnustöðum, í fjölskyldum / vinahópum myndast neikvætt andrúmsloft sem folk upplifir gjarnan en erfitt reynist að skilgreina. Þetta birtist í vanlíðan einstaklinga, einelti og erfiðleikum í samskiptum.
Á vinnustöðum eru það einstaklingarnir sem skapa andrúmsloft og viðmót starfsmanna er það sem viðskiptavinir skynja. Færni í mannlegum samskiptum er grundvallaratriði til að ná árangri í lífinu.
Húmor er stórkostlegt tæki til að auðga líf sitt og eiga gjöful mannleg samskipti. Húmor er endurnærandi og fátt er jafn ánægjulegt og hollt fyrir sál og líkama og að hlæja innilega.
Húmor í mannlegum samskiptum ber að skoða vandlega því þrátt fyrir að um augljósan gleðigjafa sé að ræða er húmor oft vandmeðfarinn. Það er hugsanlegt að einstaklingar noti húmor til að niðurlægja og lítilsvirða bæði sjálfa sig og aðra. Nauðsynlegt er að velta upp hinum fjölmörgu hliðum á fyrirbærinu húmor.

AÐ VEITA FRAMÚRSKARANDI ÞJÓNUSTU

Nokkrir umhugsunarpunktar fyrir þá sem vilja veita framúrskarandi þjónustu.

• Að “leika” framúrskarandi starfsmann.
• Hvert er “hlutverk” mitt í vinnunni?
• Hvernig get ég notfært mér “TILFINNINGABANKANN”?
• Einlægni, að gefa af sér.
• Jákvæðni, húmor, hlýlegt viðmót.
• Hvernig veit ég hvort ég er að veita góða þjónustu?
• Gagnrýni eða “umhverfismengun”.
• Að bregðast við dónalegri framkomu.
Í þessum fyrirlestri er fjallað um tækni leikarans þegar kemur að því að “leika” framúrskarandi þjónustuaðila. Öflugusta tækið í verkfæratösku leikarans er svokallaður “tilfinningabanki” og er öllum í lófa lagið að nýta sér þessa tækni í daglegu lífi og starfi. Neikvæðni og ólund í þjónustu á ekki að fyrirfinnast og opin og heiðarleg umræða og uppbyggilega gagnrýni innan fyrirtækja og hópa er skilyrði fyrir því að hægt sé að vinna með fyrirbærið “andrúmsloft” á vinnustað, sem aftur lýsir gjarnan þjónustulund fyrirtækja.
Neikvæðni, slúður og umhverfismengun í mannlegum samskiptum þarf að uppræta til að geta byggt upp heilsteypt fyrirtæki.

Erum við andleg og líkamleg eiturefna-úrgangs-ruslaskrímsli…?!

• Hvað hefur mataræði með jákvætt hugarfar að gera?
• Hvernig getur manneskja ( með lítinn sjálfsaga!) breytt mataræði sínu úr ruslmat í vítamínríkt fæði?
• Hvernig getum við breytt hugarástandi okkar?
• Hvernig getur lélegur kokkur búið til gómsæta heilsurétti?
• Hvaða eiturefni erum við að innbyrða daglega – andlega og líkamlega?
• Hver er munurinn á að vera gagnrýnin manneskja og vera neikvæð umhverfismengun?

Þetta og margt fleira ber á góma í fyrirlestri Eddu og nokkrar öflugar æfingar fylgja fyrir þá sem vilja lifa heilbrigðara lífi – en nenna því ekki!
Fyrirlesturinn er fyrst og fremst spaugileg lýsing á lífsreynslu Eddu og baráttu hennar við að lagfæra líkama og sál og tilraunir til að gerast jákvæð “hollustu-æta”.
Edda rekur söguna frá því hún byrjaði, kornung að búa til hollusturétti sem urðu að makróbíótísku bauna-óæti.
Jákvæðni er lífsafstaða – manneskjan getur breytt veruleika sínum og upplifað meiri gleði í lífinu en nokkurn getur órað fyrir.
Að lokum fylgja í kaupbæti nokkrar hryllingssögur frá dr. Gillian, Kevin Trudau og Huldu Clark um það hvernig matvæla- og lyfjaframleiðendur eru hreinlega að reyna að koma neytendum fyrir kattarnef!

NÁMSKEIÐ

Að koma fram af sjálfsöryggi (NÁMSKEIÐ/FYRIRLESTUR)

Þegar fólk er beðið um að nefna þau 14 atriði sem það kvíðir mest fyrir setur fjörutíu og eitt prósent það að koma fram fyrir hóp af fólki í fyrsta sæti, á undan kjarnorkustríði og gjaldþroti! Stór hluti fólks myndi s.s. frekar deyja en að halda ræðu. Við óttumst höfnun og gagnrýni og upp koma alls kyns kvíðavekjandi hugsanir um að við munum gleyma öllu því sem við ætluðum að segja, byrja að stama eða roðna, missa röddina, gera okkur að fíflum o.s.frv. Við þorum ekki að skora sjálf okkur á hólm og höldum okkur á “öryggismottunni”.
Þó að flestir kvíði því að tjá sig í margmenni er engin ástæða til að missa stjórn á sér af hræðslu. Hóflegur kvíði er í raun jákvæður því hann veldur því að við nýtum betur hæfileika okkar og getu og afrekum meira. Ekki er gott að losna algerlega við taugaspennuna heldur frekar að breyta henni í jákvæða orku sem hjálpar okkur í framkomunni. Að koma fram af sjálfsöryggi þýðir að við þurfum að átta okkur á eigin kostum og göllum, að þora að nota eigin persónu og gefa af sjálfum okkur. Að treysta öðrum fyrir okkur, standa með sjálfum okkur og nýta það besta sem okkur er gefið.
Á námskeiðinu auka þátttakendur færni sína í að koma fram af öryggi fyrir framan hóp af fólki og treysta á eigið ágæti. Þeir öðlast betri skilning á eigin kvíðaviðbrögðum og læra að stjórna sviðsskrekk og ótta. Farið er í framkomu og tjáningu, samspil ræðumanns og umhverfis, ótta og öryggi, að ná og halda athygli og kvíðavekjandi og sjálfsstyrkjandi hugsanir. Þátttakendur halda ræður og fá endurgjöf á framkomu sína frá þjálfara og öðrum þátttakendum.
Námskeiðið hentar þeim sem vilja efla framkomu sína fyrir framan stærri sem smærri hópa af fólki og losna við feimni.
Meðal þess sem tekið er fyrir á námskeiðinu:
Að tjá sig í stærri og smærri hópum.
Kvíði og kvíðaviðbrögð.
Að ná og halda athygli.
Ótti og sjálfsöryggi.
Kvíðavekjandi og sjálfsstyrkjandi hugsanir.
Að nota eigin útgeislun.
Ávinningur:
Meira öryggi í framkomu fyrir framan hóp af fólki.
Aukið sjálfstraust.
Betri stjórn á eigin kvíðaviðbrögðum.
Markvissari framsetning umræðuefnis.
Áhrifameiri framkoma.

SJÁLFSSTYRKINGAR- OG GLEÐINÁMSKEIÐ.

Námskeiðið er ætlað þeim sem vilja öðlast betri líðan og meira sjálfstraust og aukið öryggi í framkomu.
Hver kannast ekki við óttann sem grípur um sig þegar kemur að því að tjá sig fyrir framan hóp af fólki eða leysa erfið mál í mannlegum samskiptum, hvort heldur er á vinnustað eða á öðrum vígstöðvum? Að þekkja eigið tilfinningalíf er grundvallaratriði til að öðlast sjálfstraust. Það að finna styrkleika sinn auðveldar fólki að vera þær sjálfar og gefa af sér.
Markmiðið er að ná því að laða fram það besta í sjálfum sér og nýta það til að hafa jákvæð áhrif á líf sitt. Færni í mannlegum samskiptum og innri styrkur gerir gæfumuninn fyrir þá sem vilja auðga líf sitt.

Ávinningur:

Öryggi í framkomu
Betri líðan í einkalífi og á vinnustað.
Þekking á eigin tilfinningum.
Þekking á eigin styrkleikum og veikleikum.
Hamingjuríkara líf.

“Getur fyrirlesturinn þinn orðið líflegri?!”

Fyrirlestrahald – Einstaklingsþjálfun – Hópþjálfun
Markmið námskeiðsins er að þjálfa stjórnendur í öruggri og markvissri framkomu t.d. í viðtölum við ljósvakamiðla og fyrirlestrarhaldi. Þátttakendur læra aðferðir til að greina og stjórna eigin kvíðaviðbrögðum (sviðsskrekk) og kenndar eru aðferðir til að grípa athygli áhorfenda og halda henni eins lengi og með þarf.
Einstaklingarnir læra að nota hjálpartæki svo sem skjávarpa, tölvur o.fl. en við notkun á slíkjum hjálpartækjum gleymir fyrirlesarinn gjarnan mikilvægasta tækinu – sjálfum sér!
Leiðbeinendur búa yfirleitt yfir mikilli þekkingu og visku en það er undir hælinn lagt hvort sú þekking kemst yfirleitt til skila. Ef flutningur efnis er eintóna og dauflegur eða flytjendur tuldra og tafsa á efninu er eins víst að lítið sitji eftir hjá áheyrendum.
Lögð er áhersla á að hver og einn geti kallað fram og nýtt sér það besta í eigin fari – beitt sannfæringakrafti og hrifið aðra með sér.
Margir fyrirlesarar eru með “kæki” í flutningi efnis og vita ekkert af því. Með því að benda á þau atriði sem þeir ættu að taka til athugunar geta fyrirlesarar smám saman losað sig við þessa kæki.
Tækni leikarans nýtist fyrirlesurum ákaflega vel, enda þurfa þeir oft á tíðum að leika framúrskarandi fyrirlesara bæði í kvikmyndum og uppi á leiksviði!
Frammistaða hvers og eins er metin og endurgjöf og gagnlegar ráðleggingar veittar af þjálfara.

Ávinningur

Öryggi í framkomu.
Betri raddbeiting, öndun og líkamsmál.
Þekking á eigin ræðustíl og styrkleikum.
Þekking á “kækjum” eða “stælum” sem menn grípa ósjálfrátt til í ræðumennsku.
Áhrifameiri framkoma.

Á öllum námskeiðunum eru Kennsluaðferðirnar þessar:
Fyrirlestrar
Umræður
Æfingar
Virk þátttaka

Erpur er landsþekktur tónlistarmaður og skemmtikraftur, hann hefur unnið stóra sigra með hljómsveit sinni XXXRottweiler hundum og einnig sem sjónvarpsmaður en hann vann Sjónvarpsmaður Ársins á Eddu verðlaununum 2000 fyrir Johnnie National. Hann hefur um langa hríð haft mikinn áhuga á íslenskri tungu og er með fyrirlestur sem bæði fræðir og skemmtir.