Dísel

In by admin

Hljómsveitin Dísel hefur, þrátt fyrir ungan aldur, látið mikið fyrir sér fara. Síðla ársins 2008 gáfu þeir piltar út endurútsetningu á tímalausa slagaranum „Stál og hnífur“ eftir Bubba Morthens sem vakti mikla lukku. Hljómsveitin tók þar næst þátt í keppninni „Sumarsmellur FM 95,7“ hjá fyrrnefndri útvarpstöð og hafði þar sigur úr bítum með laginu „Sumar á ný“ en það kom sér vel fyrir sumar þyrsta landsmenn sem aldrei höfðu verið jafn nálægt því að falla í þunglindi yfir endalokum sumarsins.

Á böllum eru þeir Dísel-trukkar þó bestir því þar skarta þeir afburða góðum hljóðfæraleikurum með einn af helstu söngvörum landsins í fararbroddi. Eiríkur Hafdal (Eiki), söngvari hljómsveitarinnar, sem átti hjörtu landsmanna í Idol keppninni hér forðum daga stendur fremst á sviði og tryllir æstan lýðinn með skemmtilegri sviðsframkomu og raddbeitingu. Við hlið hans stendur Vernharður Bjarnason (Venni), gítarleikari, en hann er oftar en ekki kenndur við Durex þegar kynlífssjúkt kvenfólkið bankar uppá hjá honum. Venni spilaði lengi vel með hljómsveitinni Sólon en hætti þar síðla árs 2007. Við hlið Venna stendur Andri Þór Ólafsson (Sjúddan), bassaleikari, en hann hefur leikið með mörgum tónlistarmanninum og er nýlega kominn frá stórborginni Lundúnum þar sem hann stundaði nám við bassaleik. Fyrir aftan þá fyrrnefndu situr Magnús Ingi Sveinbjörnsson (Maggi Trymbill), trommuleikari, en hann stundar nám við FÍH og hefur leikið með hljómsveitum á borð við Envy of Nona, 6íJazz o.fl.