Steinunn Ólína og Magga Stína halda að þær séu skemmtikraftar og mæta á staðinn, yfirleitt bara á náttfötunum og stofna hljómsveit með gestum. Enginn kemst undan því að láta ljós sitt skína og öll uppáhaldslögin eru sungin og spilað með á margvísleg hljóðfæri. Píanóundirleikur er með afbrigðum lélegur því lítið kann Steinunn Ólína á píanó þó hún haldi að hún geti leikið og feikað sig í gegnum það en hvaða máli skiptir það? Magga Stína heldur lagi og gott betur eins og alþjóð veit og töfrar fram söng úr gersamlega raddlausum hálsum.
Það sem mestu skiptir er að syngja af hjartans lyst alla textana sem við höldum að við kunnum – en munum svo ekki þegar á hólminn er komið.
Þið veljið lögin, sendið inn 6 laga óskalagalista. Magga Stína og Steinunn líta yfir hann, æfa lítið og svo er bara talið í með látum, sungið og spilað.