Status í mannlegum samskiptum
Í þessum fyrirlestri er fjallað um mannleg samskipti og forsendur þeirra út frá einni af frumstæðustu hvötum mannsins: stöðutöku.
Status er ekki eingöngu sú félagslega staða sem okkur er úthlutuð eftir aldri, kyni, líkamsgerð, starfi eða frægð. Status er einnig sú staða sem við tökum okkur gagnvart öðrum með notkun raddar, tungumáls og líkamstjáningar. Hvar við lendum í goggunarröðinni er stóra spurningin – og af hverju?
Benedikt bregður á leik í flutningi sínum, skýrir hugtökin með lifandi dæmum og fær jafnvel áhorfendur til að taka þátt. Hann afhjúpar hvernig rödd, líkamsbeiting, staða í rými og tungumál verða að valdatækjum í þeim frumstæða og oft ómeðvitaða leik sem við stöndum í daglega.
Markmiðið er að áhorfendur öðlist dýpri skilning á fyrirbærinu „status“, verði meðvitaðri um eigin herbrögð og geti lesið betur í aðferðir annarra í þeirri valdabaráttu sem á sér stað í öllum mannlegum samskiptum.